Styrktartónleikar Líknarsjóðsins Ljósberans

Þann 14. desember kl. 20.30 verða árlegir Ljósberatónleikar í Akureyrarkirkju. Þetta er fjórða árið í röð sem þessir tónleikar eru haldnir. Sérstakur gestur tónleikanna í ár er Egill Ólafsson söngvari en ásamt honum koma fram Björg Þórhallsdóttir sópran, Eyrún Unnarsdóttir mezzósópran, Óskar Pétursson tenór, Eldri barnakór og Stúlknakór Akureyrarkirkju, Elísabet Waage hörpuleikari ásamt strengjasveit norðlenskra tónlistarmanna undir stjórn Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur fiðluleikara. Organistar og kórstjórar eru Eyþór Ingi Jónsson, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Hilmar Örn Agnarsson. Frumflutt verður sérstakt jólalag Ljósberans 2011, sem héðan í frá verður að árlegum viðburði og er fengur af því að fá ný íslensk lög í jólalagaflóruna. Höfundur jólalags Ljósberans í ár er norðlenski tónlistarmaðurinn góðkunni Daníel Þorsteinsson. Allir sem að tónleikunum koma gefa vinnu sína og aðgangseyrir rennur óskiptur til  sjóðsins. Umsjón með tónleikunum í ár, og frá upphafi, hefur Björg Þórhallsdóttir. Líknarsjóðurinn Ljósberinn var stofnaður til minningar um sr. Þórhall Höskuldsson, fyrrverandi sóknarprest við kirkjuna, fyrir tilstuðlan fjölskyldu hans, en sr. Þórhalli var mjög umhugað um líknar- og velferðarmál. Markmið sjóðsins er að veita líknar- og viðlagaastoð til Akureyringa með sérstaka áherslu á aðstoð fyrir jól. Prestar kirkjunnar sjá um að úthluta úr sjóðnum. Tónleikarnir ásamt fjáröflun og gjöfum tengdum þeim hafa verið kjölfestan í fjáröflun sjóðsins, ásamt gjöfum sem honum hafa borist og framlögum í ljósaltari (ljósbera) kirkjunnar. Hægt er að gefa ábendingar eða koma á framfæri umsóknum um framlög úr sjóðnum til presta Akureyrarkirkju og er farið með allar umsóknir og úthlutanir sem trúnaðarmál. Sjóðurinn er í vörslu Akureyrarkirkju og hægt er að leggja fjárframlög inn á reikning sjóðsins 0302-13-701414, kt. 410169-6149.